Friday, July 1, 2011

lóan er komin og farin

vorboðinn ljúfi flaug alla leið til rúmeníu til að heimsækja vínkonu sína sem ég kunni að sjálfsögðu mikils að meta. ég mætti með skilti á flugvöllinn (fagurmálað "GIÐA"), hélt í smá stund að þetta væri allt saman grín og að ég myndi þurfa að bíða allt kvöldið án árangurs. en svo kom lóa litla og ég dró hana með mér upp í strætó (að sjálfsögðu án þess að borga) því nær ómögulegt er að taka leigubíl frá flugvellinum án þess að vera svikinn eins og ég komst svo rækilega að í upphafi minnar ferðar.

við skáluðum í freyðivíni og fórum svo í sundlaugarpartý í buskanum þar sem glimmerhúðaðar skvísur í neon sundfötum dilluðu sér á sýningarpöllum. ekki alveg okkar tebolli svona eftir á að hyggja. næstu daga var mjög heitt og við hjóluðum, náðum okkur í smá tan, skoðuðum smá söfn, gyða fékk að kynnast sígaunum og flækingshundum og öllu því rúmenska sem ég er löngu hætt að kippa mér upp við. drukkum íslenskt brennivín með rúmenskum og japönskum vinum í hringlaga húsi, ætluðum til búdapest en hættum svo við, sigldum á gosbrunn og urðum rassblautar, borðuðum allskonar góðan mat, drukkum vatnsmelónulímonaði og rósavín í steikjandi hita. dönsuðum við brit-pop slagara og bröltum heim í morgunsárið með blóm í hárinu.

laugardagsmorgunn mættum við ósofnar á gara de nord og héldum af stað upp í fjöllin. fengum líkamlegt sjokk að stíga út úr lest í sinaia og vera komnar úr 40 stiga hita yfir í 10 gráður. fyrsta sem mætti okkur voru tveir agnarsmáir kettlingar sem skildir höfðu verið eftir við lestarteinana til að bíða ógeðfelldra örlaga sinna. þar sem okkar annars ísköldu hjörtu bráðna aðeins þegar gamalt fólk eða dýr eiga í hlut gátum við ekki skilið þá eftir heldur kúrðu þeir í fanginu á okkur þar til við komum að stórri höll en þá fundum við þeim stað í hallargarðinum og vonuðum að þeir myndu finna sér eigendur í nágrenninu. höllin hins vegar var hin ótrúlegasta! fyrsta evrópska höllin með rafmagn og innihélt hún því rafmagnsljósakrónur, lyftu og fleira rafmagns-kyns. þar voru allskonar lúxus herbergi eins og te-herbergi í austurlenskum stíl, reyk-herbergi með vatnspípum í tyrkneskum stíl, tónlistar-herbergi með flygil, sembal og hörpu svo eitthvað sé nefnt. smá myndir:





keyptum svo ljótar kitch dýrastyttur í safnið og hoppuðum aftur upp í lest. út á næsta stoppi sem var busteni sem er staðsett í vægast sagt dramatískum fjöllum og trónir risavaxinn kross á fjallstoppi yfir bænum. vakti smá óþægilega tilfinningu hjá mér en ég held að gyða hafi verið gjörsamlega að fríka út þann tíma sem við eyddum í viðkomandi bæ. fórum að skoða kirkju sem var inni í skógi og mættum á leiðinni skógarbirni að gæða sér á kanínu við göngustíginn. nei ok það var sagan sem ég vildi að ég gæti sagt en í raun var að koma stormur þegar við lögðum af stað inn í skóginn og við vorum svolítið stressaðar eftir "VARÚÐ HÉR ERU MARGIR BIRNIR!" skiltin svo þegar við töldum okkur sjá eitthvað órætt í fjarska sem hreyfðist hlupum við til baka og rétt náðum inn á twin peaks-fjallakofa-veitingastað áður en stormurinn skall á með látum.



gistum í heimahúsi sem er algengt á stöðum sem þessum, en utanfrá leit húsið út fyrir að vera í eigu krúttkonu með blómum skreytta verönd og dúllerí. okkur mætti hins vegar hinn undarlegasti maður sem var appelsínugulur á litinn með gullkeðju um hálsinn en skrýtnast var hárið sem var aflitað og rakað stutt fyrir utan örþunnan topp að framan sem sveigðist í fíngerðan boga fram á ennið. hann vísaði okkur á herbergið sem við fengum sem var í öllum regnbogans ósmekklegu pastellitum, greinilega mjög vel útpælt með glitrandi gegnsæar gardínur og tilgangslausa skrautmuni. rúmið var svo klætt bláum satínrúmfötum með rósamunstri. ég var svo þreytt eftir síðustu daga að ég svaf eins og ungabarn en ég held að gyða hafi ekki sofið mikið af ótta við að appelsínuguli maðurinn myndi byrla okkur svefnlyf og ræna okkur í mansal.

það gerðist hins vegar ekki og við héldum til brasov morguninn eftir. þar neyddumst við til að hoppa í tvær búðir til að kaupa okkur peysur því það var enn svo kalt. gyða var nú þegar komin í fínustu snjóhvíta og appelsínugula hlaupaskó. borðuðum serbneskar pylsur og tókum svo rútu til bran en þar er hinn margumtalaði drakúlakastali staðsettur. mjög fín miðaldabygging en því miður voru húsgögn af skornum skammti og frá hinum ýmsu tímabilum svo heildarmyndin var ekkert frábær. aftur heim til búkarest.

síðustu dagana gerðum við svo grínkaup í second-hand búðum og eignuðumst gersemar á 80-200 kr, fórum á ódýrasta ruslaklúbb búkarestborgar þar sem fylgdi hálfur gin og tónik með 200 kr bjórnum. ég fylgdi svo gyðu út á flugvöll þar sem við ræddum 2-3-toppur klippingar á karlmönnum og ég laumaði allskonar dóti í töskuna hennar til að létta á minni þegar þar að kemur.

hef loksins látið undan og fjárfest í flugmiða en leið mín liggur til feneyja 17. júlí. svo barselóna og amsterdam. elsku námslán, TAKK FYRIR AÐ VERA TIL.

ps. gleymdi að taka fram að ég talaði við alþjóðafulltrúa skólans og krafðist erasmus-nemendasýningar sem við svo viðeigandi náðum að smella upp á sjálfan 17. júní.

No comments: