Tuesday, April 26, 2011

borðaðu grasið þitt með ljós í hjarta

kristur er endurfæddur, mikið rétt og allir fyllast ljósi og kærleik og borða rosalega mikinn mat.

allt fram á laugardag hélt ég að ég myndi eiga frekar einmana páska í búkarest sem hljómaði samt ekki svo illa fyrir utan páskaeggjaleysi. eggið er enn á sveimi einhversstaðar því þar sem ísland er ekki í evrópusambandinu þarf pakkinn að fara á spes pósthús í úthverfi búkarest áður en storkurinn flytur það til mín.

á laugardagsmorgun vaknaði ég í sólinni og fékk páskaboð frá george. við pökkuðum í snatri og héldum á gara de nord þar sem við tókum lest til heimabæjar hans focsani. foreldrar hans tóku brosandi á móti okkur á lestarpallinum og við fórum á æskuheimilið hans sem var mjög fínt rúmenskt heimili. pabbi hans talar smá ensku en mamma hans enga svo helgin fór fram með annars konar tjáningarmáta en yfirleitt tíðkast en það er hægt að komsast ansi langt á takk og brosi.

áður en lengra er haldið skal taka fram að eftir tvær vikur hér í borg tók ég ákvörðun um að eftir ár án kjöts skyldi ég nú fara alla leið og kynnast rúmenskri menningu sem best en rúmensk matargerð byggist nær eingöngu á kjötmeti.

næst kem ég því að matartímanum. við byrjuðum á hefðbundinni nokkurs konar kjötsúpu, því næst kom sarmale

en það er hakkað kjöt og grænmeti og hrísgrjón vafið inn í lauf eða kálblöð. eftir það kom einhvers konar kæfa (þarna var ég löngu orðin södd) sem er svipuð og paté sem allavega mamma mín gerir fyrir jólin, og loks brauðkennd kaka með núggatiröndum. allt bragðaðist þetta mjög vel!

eftir mat keyrðum við gegnum pínulítið þorp, fórum út og skoðuðum vatn við eina virkjun, fórum í klessubíla í litlu tívolí og svo heim í meiri mat. á miðnætti fóru allir úr þorpinu í kirkjugarðinn með kerti að ná í ljós fyrir páskahátíðina, sem þau báru svo heim og létu loga í smá stund. mjög falleg hefð.

páskadagsmorgunn hófst á heitri mjólk með hunangi, fallegum rauðum lituðum eggjum sem sem fylgir önnur lítil hefð en tvær manneskjur þurfa að taka sitthvort eggið, önnur segir "kristur er endurfæddur", hin svarar "já það er rétt" eða eitthvað á þá vegu og svo slærr hinn fyrri með sínu eggi í hitt og reynir að brjóta það. svo öfugt. með þessu var svo meiri kaka.

fórum í ferðalag í lítið þorp þar sem amma og afi george búa og keyrðum gegnum fullt af litlum pastelmáluðum sveitaþorpum með sígauna og hesta og önnur fínheit. amman og afinn búa í rosa sætu hefðbundnu rúmensku húsi með munstruð teppi og dúka og húsdýr, hlöðu, kamar og tilheyrandi. enn og aftur borðað mjög mikið. eftir mat fórum við svo að skoða einn garð í kringum safn tileinkað tónskáldinu george enescu (en svo skemmtilega vill til að í búkarest bý á á str. george enescu nr 40) og svo löbbuðum við í skóginum og óðum í á sem var mun heitari en íslenku lækirnir...á leiðinni til baka stoppuðum við í nokkrum bæjum, meðal annars einum þar sem býr fullt af gömlu fólki því þar eru allskonar uppsprettur af vatni með lækningamátt. eftir að hafa smakkað öll vötnin sem voru um 10 talsins og hvert öðru saltara og skrýtnara, sem við ýmist spíttum út úr okkur eða píndum ofaní okkur því það var talið gott fyrir augun, komumst við að því að síður en svo voru þau öll ætluð til að drekka heldur eins og í augnvatnstilfellinu ætluð til að þvo augun með og lækna. og auðvitað borðuðum við svolítið meira þegar við komum heim.

mánudagsmorgunn hófst á morgunmat, svo sóttum við annan george, keyptum ís og keyrðum svo útúr bænum að skoða lítil þorp og fjöll og læki. enduðum á stað þar sem er að finna náttúruleg gös sem koma upp úr jörðinni og þar kveikir fók eld. ef maður rótar í sandinum stækkar eldurinn. mjög skrýtið. en sígaunar og allskonar "skrýtið" fólk kemur þangað og grillar mat en það er ekki mjög heilsusamlegt. heim að borða meira. allskonar mat og kirsuberjaköku mmmm.

send heim með kossum, matarpakka frá foreldrum og heimboði í framtíðinni. frábær páskahátíð!

í dag braut ég svo upp póstkassann og fékk einhvern tæknikall í blokkinni á móti til að setja upp nýjan lás fyrir mig. keypti handa honum kippu af bjór í staðinn.

Friday, April 22, 2011

22. apríl 1998

dyrasíminn hringir með hljóði sem minnir á reykskynjara og fyrir utan er mættur maður frá símafyrirtækinu. ég ýti á núll til að hleypa honum inn og stuttu seinna birtist hann í dyrunum. miðaldra, með góða bjórvömb, í gallavesti með verkfæratösku og langa snúru. hann segir halló og gengur í bæinn, er ekkert að eyða tíma í spjall um veðrið eða annað hversdagslegt heldur dregur upp stærðarinnar steinbor og smellir einni holu í vegginn fyrir ofan dyrnar að íbúðinni. lítur í kring um sig, skoðar dyrakarminn á næstu hurð og er ekki viss í fyrstu, ríður svo á vaðið með borinn á ný í eitt hornið. skipar mér að loka glugganum, biður um stól sem vill svo til að er aðeins til í formi viðkvæms strákolls úr eldhúsinu en hann hikar ekki þó líkamsástand hans bendi til þess að téður stóll muni ekki standast álagið. það sleppur fyrir horn meðan hann þræðir snúruna gegnum holurnar tvær. kastar úlpunni sinni á rúmið mitt, tyllir sér fyrir framan tölvuna og tengir snúruna við. lætur mig skrifa undir eitthvað blað þar sem nafnið mitt er prentað GISLADOTTIR DORA GRUND, slær inn lykilorð og hviss bamm búmm, tenging hefur náðst við veraldarvefinn. segir bæ og skilur mig eftir með skítugt gólf en fínustu nettengingu.

þetta gerðist reyndar núna áðan, föstudaginn langa árið 2011. hér er fólk ekkert að gera kröfur um ósýnilegt internet út um alla íbúð. kippir sér heldur ekkert upp við að mæta í vinnuna á föstudaginn langa. ég held að allt sé opið í dag. líka pósthúsið sem lét mig mæta klukkan 8.30 í morgun til þess eins að segja mér að þeir hefðu ekki fundið pakkann minn frá íslandi með páskaegginu.

:(

en sem betur fer keypti ég mér súkkulaðihænu til vonar og vara sem er með einhvers konar surpriză inní. vonandi er það ekki eitthvað í anda "happy ending massage" eins og virðist vera svo vinsælt hér..

páskakveðja,
eilífðarstarfsmaður á grund

Sunday, April 17, 2011

tileinkað gyðu lóu

í gærkvöldi komst ég að því að batman hefur fært höfuðstöðvar sínar til búkarest, nánar tiltekið í hverfið mitt:



ég býst við frábærum nágrannaböndum og er strax farin að plana matarboð og vídjókvöld.

annars hef ég komist að helsta menningarlega muninum á rúmensku vinum mínum og mér.
-þau nota mjólk og mikinn sykur í kaffið sitt og drekka það hægt.
-ég vil kaffið mitt heitt og svart og drekk það því hratt.

get samt ekki sagt að þetta valdi menningarlegum árekstrum í vinskap okkar.

í síðustu viku fór ég að ná mér í alvöru internet og skrifaði undir samning. eina sem vantar er að mennirnir frá internetfyrirtækinu komi og setji netið upp í íbúðinni. þolinmæði er mikilvægur eiginleiki hér í borg. jafnframt held ég að rúmenar þekki ekki hugtakið um stundvísi. ekki einu sinni kennarinn mætir á réttum tíma heldur 15-20 mínútum of seint. þetta fyrirkomulag hentar mínu tímaskyni því einstaklega vel eða kannski of vel.

á föstudaginn fór ég í litir og föndur og keypti mér allskonar teiknidót. nú þarf ég bara að byrja á þessum ansans sjálfsmyndum. um kvöldið fór ég í partý í einhverju iðnaðarhúsnæði þar sem var sýning og partý á vegum mccann og annarrar auglýsingastofu og cinnamon chasers voru að spila. vaknaði með 3D gleraugu í veskinu sem var afar ánægjulegt.

annars er ég hugfangin af þessu: http://www.youtube.com/watch?v=_0LRBUa6sf4&NR=1
og þessu: http://abandonedplaces.livejournal.com/1651741.html

en í pripyat sem er rétt fyrir utan tchernobyl eru dýrin farin að hreiðra um sig í borginni sem hefur staðið næstum ósnert í yfir 20 ár.

í dag er komin sól aftur eftir frekar gráa viku. það kallar á göngutúr!

Monday, April 11, 2011

á samning við djöfulinn

sena úr lest:

út um gluggann sjást skógi vaxnir fjallstoppar, múrsteinsþök hvert ofan í öðru, sígaunar með hestvagna og húsdýr á engjum. veðurbreytingar við hverja einustu stoppistöð. föruneyti fimm ungmenna til Sibiu sem svipar til þýsks smábæjar með steinlagðar, þröngar, hlykkjóttar götur. tveir úr hópnum keyptu ekki miða í lestina heldur hittu miðavörðinn í farþegarými 1 og borguðu honum svart í vasa. við hliðiná mér sest blindur maður sem brosir og hámar í sig nestið sitt. og svona hélt þetta áfram næstu 7 klukkustundirnar því rúmenskar lestir ferðast sjaldnast hraðar en 40 km/klst. það var mikið á sig lagt fyrir eina leiksýningu en ó svo sannarlega þess virði.

við komum um 6, fundum hostel-bar í bænum sem var næstum óhugnanlega kvikmyndagerðarvænn og fundum þar heimamenn sem gátu veitt leiðsögn í leikhúsið sem var í stóru verksmiðjuhúsi í útjaðri bæjarins. sýningin stóð frá 8 til 10 og fór auðvitað fram á móðurmálinu en það skipti engu máli, bæði því ég þekkti söguna sem var FAUST og því upplifunin var að mestu leyti sjónræn og hljóðræn (en ekki skilningur á orðum). þið getið ímyndað ykkur rauðmálaðan, hálfnakinn djöfulinn að tala á rúmensku inni í hausnum á ykkur. já einhvernveginn þannig.

leikmyndin var virkilega flott, mjög hreyfanleg og í miðri sýningu var hún opnuð upp og gestum boðið að ganga í gegn og inn um hlið helvítis þar sem tryllingurinn hélt áfram með loftfimleikamönnum, spúandi eldi og snarbrjálaðri tónlist. ég hef aldrei upplifað aðra eins leiksýningu enda margverðlaunuð og -lofuð. hér er smjörþefurinn:

http://www.youtube.com/watch?v=bXU78K6XSwg

eftir sýningu fórum við agndofa í bjór á hostelbar, borðuðum svo miðnæturkvöldmat á eina opna veitingastaðnum sem við fundum, röltum hlykkjóttar götur meðan við biðum eftir lestinni til baka sem lagði af stað kl 3.15. mögulega lengstu 7 klukkustundir lífs míns. komin til baka um 10 í morgun og beint heim í lúr. það má bera þetta saman við að keyra fram og til baka á egilsstaði til að fara í leikhús.

annars var helgin í heild mjög góð, var á silkiprentnámskeiði í galeria posibila (sem rekur "half-full" bókasafnið sem sérhæfir sig í silkiprentmyndasögum) á föstudag frá hádegi til miðnættist, skálaði smá í góðum hóp eftir harða vinnu og svo aftur á verkstæðið að klára á laugardaginn. tókst svo um kvöldið að gera fyrsta vídjóið mitt síðan ég kom hingað, en við fengum sem verkefni yfir önnina að gera þrjú einnar mínútu vídjó. stórgott!

ég er alltaf að velta fyrir mér tungumáli þeirra rúmena og eitt sem mér finnst mjög skemmtilegt er hversu duglegir þeir eru að nota endinguna "rie" eða "rí" á íslensku sbr. bakarí. hér er hægt að fara í klipperí og kringlerí og jafnvel pelserí, og finnst mér að íslendingar ættu að vera duglegri að nota téða rí-endingu.

Sunday, April 3, 2011

og þá var kátt í höllinni

ég afmeyjaði heimilið á föstudaginn og hélt innflutningspartý.
það mættu um 20 manns, við sátum á gólfinu, skáluðum í sjampó, krotuðum í gestabók, gerðum allskonar plön sem sennilega aldrei verða framkvæmd, og höfðum almennt gaman til 7 á laugardagsmorgni. engar kvartanir frá nágrönnum sem mig grunar að séu allir 70+ ef marka má öll skiptin sem ég held dyrunum á blokkinni fyrir eldri borgara á leiðinni inn og segi "bună ziua" og þau brosa krúttlega og segja "mulţumesc".

fékk tvo kærkomna vini til aðstoðar við þrif daginn eftir en allan daginn leið mér eins og þessu dýri:

og endaði kvöldið á experimental drone event á control club sem var alveg viðeigandi.

það er svo skrýtið hvað mér líður vel hér og sakna íslands ekki neitt. þetta er eins og að vera í ástarsambandi sem maður veit að mun enda.

en ég lofaði myndum:


þetta er svefnherbergið / stofan

fyrirmyndareldhús

baðherbergi

já þetta er smá tómlegt eins og er en mun vaxa og dafna með tímanum.

langar að skrifa allskonar áhugavert en það verður að bíða því ég þarf að sinna svo mörgum verkefnum fyrir skólann.
la revedere