Saturday, March 26, 2011

að gera eitthvað skrýtið við látna ættingja móður einhvers

svona eiga rúmenar fáránleg blótsyrði

nú sit ég með stolið internet og drekk fyrsta kaffibollann í nýju heimkynnum mínum á áttundu og efstu hæð. eftir margar hryllingsferðir í hinar og þessar íbúðarholur fann ég einstaklega fína eins manns íbúð með stórt eldhús og stóra glugga í gömlu hverfi miðsvæðis í borginni. svo þið getið byrjað að panta flugmiðana, ég er í stakk búin að taka á móti gestum!

ég er byrjuð á prentverkstæðinu þar sem ég hef tvo gamla reynda og tvo yngri aðstoðarmenn að hjálpa mér með verkefnið mitt en þeir prenta líka sjálfir, meðan þeir keðjureykja og þræta um hvernig sé best að gera hitt og þetta.

í ljósmyndun erum við að vinna í hópum og förum á silkiprentnámskeið í næstu viku. í þeim tímum eru allir alltaf inná klósetti að reykja (en það eru allir síreykjandi allstaðar hér) og ég er að hugsa um að stofna gallerí þar inni í anda gallerí skítur og kanill. shit and cinnamon gallery? eða ekki.

vídjótímarnir eru að mestu leyti ekki til staðar. ég hef ekki alveg áttað mig á því kerfi en á þriðjudögum og miðvikudögum þegar eiga að vera vídjótímar og ég mæti og finn hvorki kennara né nemendur þá fer ég niður á prentverkstæði í staðinn.

mér skilst að ég eigi líka að vera í teiknitímum einu sinni í viku en þar er sama sagan að kennarinn mætir mjög sjaldan en sendir út verkefni. fyrir mánudaginn á ég að teikna sjálfsmynd. ég skil ekki alveg tengslin við ljósmyndun en hvað um það.

krakkarnir í bekknum sögðu mér að fyrir nokkrum árum kom stelpa frá danmörku sem skiptinemi á fyrsta ári. hún átti upphaflega að vera eina önn en varð ástfangin af rúmenskum strák, kláraði öll þrjú árin úti og gifti sig svo og býr í búkarest í dag. (engar áhyggjur mamma)

varð vitni að rúmenskri jarðarför um daginn alveg óvart og komst að því að kistan er opin í þeirra athöfn og þegar líkbíllinn ók hægt í burtu með ættingjana í halarófu á eftir fékk ég að líta augum hinn látna í skottinu. frábær tímasetning. vinur minn sagði mér svo að þegar manneskja deyr er hún "geymd" á heimili ættingjanna fram að jarðarför en ekki í líkhúsi, en það geta verið um 3 dagar og á meðan þarf að hylja alla spegla í húsinu og einnig á líkbílnum. einhverstaðar í rúmeníu er svo kirkjugarður þar sem allt er málað og skreytt og marglitað, nokkurs konar gleði-kirkjugarður en þangað fer ég vonandi í heimsókn.
hér er mynd:



glæsilegt?

veðrið hér er eitthvað búið að leika íslenska leikinn en það kom 16 stiga hiti og sól í 2 daga og svo aftur kalt í í viku. núna er vorið samt alveg komið held ég og ég þarf að finna mér gluggatjöld.

innlit-útlit uppgjör á heimilinu kannski í næstu færslu.
ble

Sunday, March 20, 2011

maðurinn í ruslageymslunni

Ion Barladeanu var heimilislaus og bjó í ruslageymslu í kjallara á kommúnistablokk í búkarest. þar notaði hann hvers kyns tímarit og prentað efni til að búa til collage/klippimyndir, yfirleitt tengdar Ceausescu og kommúnisma en hefðu myndirnar litið dagsins ljós fyrir byltinguna 1989 hefði téður Ion sennilega ekki hlotið það lof sem hann hefur fengið eftir að hann var uppgötvaður 2007. núna er hann ríkur og frægur og hefur hitt Angelinu Jolie en vinur minn sagði mér að hann lifði enn eins og heimilislaus og vinnur áfram í klippimyndunum sínum.









Ion Barladeanu er fyrsti rúmenski myndlistamaðurinn sem ég kynntist hér. flottur.

Sunday, March 13, 2011

lúxus

vorið kom í gær
YNDISLEGT

og ég var einnig bitin í höndina af hundi á karókíbar. mín mistök að ætla að klappa honum smá. ekkert alvarlegt. ekkert blóð.

síðasta vika er búin að vera mjög skemmtileg, krakkarnir í bekknum mínum eru afar vinaleg og ég er nú þegar búin fara í tvö partý með kennurunum mínum. við gáfum út blað á föstudaginn sem ég get kannski deilt í gegnum veraldarvefinn á næstu dögum. núna mun samt námið byrja á rúmensku svo ég þarf að finna mér góðan túlk innan bekkjarins. fæ samt að gera sjálfstætt ljósmyndaverkefni með öðrum kennara sem er víst einn þekktasti ljósmyndari rúmeníu og heitir iosif kiraly http://www.iokira.com/ gaman það!

á þriðjudaginn fór ég í smá ferðalag með tveimur strákum úr bekknum mínum. þeir fóru með mig að skoða vötn og garða í borginni og svo reyndum við að komast inn í einhverja stóra byggingu sem leit út eins og fangelsi, það litla sem við gátum skoðað að innan. held þetta hafi samt verið höfuðstöðvar dagblaðs.
annað vatnið sem við heimsóttum var búið til sem niðurfall gegn flóðum í borginni og var látið fara yfir kirkjugarð. úti í vatninu er svo lítil eyja með leifum af einhverskonar tjörn og skrauti úr kirkjugarðinum. þarna í kring eru líka rosalega margir hundar og heimilislaust fólk býr við göngustíginn í endurvinnslukofum.



klúbba-dóra er núna búin að fara á þrjá stóra klúbba. studio martin sem var einu sinni bíóhús en þar voru electro dj-ar frá berlín að spila og ég ekki alveg á þeim dansskónum. kulturhaus sem er frekar nýr og mjög stór er svo annar sem spilar mainstream rokk a la 10. bekkjarpartý og mér leiddist. súper ódýrir drykkir samt, 5 lei sem er 200 kr! control club líkaði mér best við en þar var góð músík og bæði dansgólf og nóg af sófum og borðum. kom inn á einhverja drone tónleika sem var alveg kúl og svo var bekkjarbróðir minn að dj-a eftir það og er greinilega fær. í gær fór ég svo á téðan kaókíbar sem er bara rétt hjá heimavistinni en það var mjög fyndið því þar er bara sungið rokk-karókí og mjög misvel eins og gefur að skilja.

ég er búin að vera ein í herberginu alla helgina sem er dásamlegt. er því búin að spila mína tónlist og elda minn mat án þess að vera með þrjár manneskjur ofan í mér en þær fóru allar heim til foreldra sinna yfir helgina.

núna er ég að fara að hitta einhverja kids úr bekknum í kaffi á efstu hæð í höllinni hans ceausescu og fá mér göngutúr í góða veðrinu.

alright bæ

Sunday, March 6, 2011

it's my life - bon jovi

þetta er seriously í dúndrandi spilun í næsta herbergi. fleira vinsælt er U2, coldplay og robbie williams.

ég hef fundið mér samastað. íbúð 2 mínútur frá skólanum, stór með baðkar og svalir og allt sem ég óskaði mér. fer reyndar á blint stefnumót hvað meðleigjendur varðar en stelpurnar 2 sem búa þar núna eru báðar að fara út í mars svo það koma tveir nýjir inn með mér í apríl. ég vona að þau séu áhugafólk um eldamennsku og rauðvín og almennan lúxus.

á föstudaginn ákvað klúbba-dóra að gefa djamminu séns. fór út með pólsku vinkonum mínum (þær heita agnieszka og ursula en verða héðan í frá kallaðar aga og ula) á einhvern subbulegan kulturhaus klúbb en barúlfurinn játaði sig sigraðan eftir 15 mínútna bið eftir fatahengi og dró þær á einhverja deftones-queens of the stone age-aldamóta-rokkbúllu sem var nú ekki merkileg en þar voru allavega laxableikir veggir og fínar myndir. svo fórum við á aðeins stærri stað sem var kúl þar sem ég eignaðist vinkonu í flottum skóm sem ætlar að gefa mér allt inside scoop um djammið hér í borg og fékk skot frá sætum barþjóni sem vildi verða kærastinn minn.

tékkaði mollið á laugardaginn sem er eins og risastór debenhamsbúð og þú sérð ekki hvar ein búð byrjar og hin endar og allt er fullt af skartgripum og tekknó-vondulagakeppni í gangi skildist mér. svo fór ég í göngutúr um gamla hverfið sem er bara göngugötur, sumar reyndar ógönguhæfar því þær eru grafnar upp og bara trébrýr yfir moldarskurði, en hverfið er samt mjög fallegt. týndist smá og fann loks calea victorei sem er ein elsta gata borgarinnar sem gatan mín krossar og ætlaði aldeilis að trítla heim en fór þá í öfuga átt og fattaði að ég var á suðurenda götunnar en ég bý við norðurendann. tók samt merkilega stuttan tíma að labba til baka sem er mjög jákvætt og ég veit núna að ég get því farið allra minna leiða fótgangandi ef svo ber við.

í gær horfði ég á rosemary's baby með einhverjum kids hér á heimavistinni.

ætla að gera mér ferð í carrefour stórmarkaðinn sem ég fann loks í gær en það er held ég eini alvöru súpermarkaðurinn hér og er riiiiiiisastór. svo á ég stefnumót við spænska stelpu á blússtað og fer kannski í bíó í ótrúlega fína cinemateque-inu sem ég fann í gær og sýnir myndir frá öllum heimshornum, gamlar klassískar og líka heimildarmyndir og fleira fínt.

búin að læra allskonar nytsamleg orð og setningar eins og til dæmis "vinsamlegast leggið ekki hér þegar búðin er opin".

Thursday, March 3, 2011

APPELSÍNUR!

þær eru svo ótrúlega góðar hér.
annars hef ég ákveðið að borða mikið súkkulaði í búkarest. þar gengur maður allavega að einhverju vísu.
ég er líka svo hrædd við að fara inn á matsölustaði því þá þarf ég að tala.



sá fótalausan mann í dag á hjólabretti. það var erfitt að stoppa ekki og horfa. aðdáunarvert.

ég er búin að hringsóla mjög mikið síðustu daga því það þykir víst ekki mikilvægt hér að merkja hlutina vel. sem dæmi eru metro stöðvar næstum ósjáanlegar þar til þú gengur óvart niður í þær. hef því séð allskonar skrýtið eins og til dæmis útfararstofur sem virðast vera á öðru hvoru götuhorni hér í borg og ósjaldan er gerviblómabúð skellt við hliðiná. þá færðu allt á sama staðnum fyrir útförina. bráðsniðugir þessir rúmenar!

er aftur orðin hrædd við hundana. heyrði bitsögu í gær og varð stressuð að labba með refaskottið mitt um hálsinn í dag af ótta við að það yrði ráðist á mig. ansans skottið kemur mér í vandræði víðsvegar um heiminn.

það er fyndið hvað maður er fljótur að venjast. ég var rétt í þessu að klæða mig í sturtuskóna mína, fara með óhreina uppvaskið, eftir að hafa eldað mér kvöldmat á prímus, inn á klósett og vaska það upp með svampi og einhverskonar uppþvottalegi í föstu formi í baðherbergisvaskinum eins og ekkert væri sjálfsagðara.

á mánudaginn fæ ég svo að byrja að gera list!!


(og já koppurinn var ekkert djók. honum fylgdi líka allskyns barnadót. hún og kæró eru víst byrjuð að safna fyrir börnin.)

Tuesday, March 1, 2011

hvernig skiptir maður um vask?

maddamman á heimilinu var ekki nógu ánægð með mig og sagði að nú skyldi ég skottast út í búð og kaupa vask og skipta um. æiiiiiiii.

dagurinn í gær var samt góður. ég fór í skólann sem er frekar fínn og hitti alþjóðafulltrúann sem er mun betri í ensku en hún gaf uppi í tölvupóstunum. það virðist vera eitthvert samskiptaleysi milli kennara en eftir að við ákváðum að ég yrði í ljósmynda- og vídjódeild þá lét yfirmaður þeirrar deildar mig fá lista með símanúmerum kennaranna og óskaði mér góðs gengis. í staðinn fyrir fræðikúrsa sem eru jú allir á rúmensku fæ ég svo að leika mér á prentverkstæðinu.

eftir skóla fór ég í könnunarleiðangur númer þrjú og rambaði inn í piata romana sem er mjög fínt hverfi. þar var götumarkaður þar sem eru seld lítil skraut, oftast nælur með rauðu og hvítu bandi í, en það er víst siður hér að 1. mars þá gefa rúmenar konunum í lífi sínu svona skraut, hvort sem það er eiginkonan eða strætóbílstjóri. ég keypti svona handa sjálfri mér og festi við lykilinn minn.

ég fann bíóið cinema patria sem sýnir myndir á ensku sem er snilld og þar við hliðiná rakst ég á dásamlega bókabúð í fallegu gömlu húsi en þar eru auk bóka seldir geisladiskar og plötur, dvd myndir og dýrindis te. þegar maður er einn á nýjum stað er svo mikilvægt að umvefja sig góðu dóti svo ég keypti mér tvær alvörubækur, tvær kanínubarnabækur á rúmensku (til að æfa mig), lísu í undralandi á dvd (með rúmenskum texta) og japanskt cherry blossom te.

ég er búin að hitta hina herbergissystirina en hún heitir christina en hún er svona týpa sem gælir við að vera emó. svo er víst ein önnur að koma í dag en hún kom með dótið sitt í fyrradag og meðal annars kassa með mynd af koppi á sem ég veit ekki hvort ég voni meira að sé koppur eða dót í koppakassa.

í gærkvöldi var svo smá partý í herberginu þar sem ég spilaði íslenska tónlist fyrir rúmensku börnin og þau voru ekkert alveg að kaupa það nema ein sem átti að minnsta kosti FM Belfast plötuna í tölvunni sinni. hún er líka mest kúl af þeim og best í ensku.

það eru víst tvær stelpur frá búlgaríu og tvær frá póllandi hér líka og svo komst ég líka að því að það eru þrír franskir strákar í mastersnáminu í ljósmyndun sem er nú ekki amalegt.

hér eru svo mínir veraldlegu munir í búkarest ef frá eru talin fötin mín:



nokkuð gott?