sena úr lest:
út um gluggann sjást skógi vaxnir fjallstoppar, múrsteinsþök hvert ofan í öðru, sígaunar með hestvagna og húsdýr á engjum. veðurbreytingar við hverja einustu stoppistöð. föruneyti fimm ungmenna til Sibiu sem svipar til þýsks smábæjar með steinlagðar, þröngar, hlykkjóttar götur. tveir úr hópnum keyptu ekki miða í lestina heldur hittu miðavörðinn í farþegarými 1 og borguðu honum svart í vasa. við hliðiná mér sest blindur maður sem brosir og hámar í sig nestið sitt. og svona hélt þetta áfram næstu 7 klukkustundirnar því rúmenskar lestir ferðast sjaldnast hraðar en 40 km/klst. það var mikið á sig lagt fyrir eina leiksýningu en ó svo sannarlega þess virði.
við komum um 6, fundum hostel-bar í bænum sem var næstum óhugnanlega kvikmyndagerðarvænn og fundum þar heimamenn sem gátu veitt leiðsögn í leikhúsið sem var í stóru verksmiðjuhúsi í útjaðri bæjarins. sýningin stóð frá 8 til 10 og fór auðvitað fram á móðurmálinu en það skipti engu máli, bæði því ég þekkti söguna sem var FAUST og því upplifunin var að mestu leyti sjónræn og hljóðræn (en ekki skilningur á orðum). þið getið ímyndað ykkur rauðmálaðan, hálfnakinn djöfulinn að tala á rúmensku inni í hausnum á ykkur. já einhvernveginn þannig.
leikmyndin var virkilega flott, mjög hreyfanleg og í miðri sýningu var hún opnuð upp og gestum boðið að ganga í gegn og inn um hlið helvítis þar sem tryllingurinn hélt áfram með loftfimleikamönnum, spúandi eldi og snarbrjálaðri tónlist. ég hef aldrei upplifað aðra eins leiksýningu enda margverðlaunuð og -lofuð. hér er smjörþefurinn:
http://www.youtube.com/watch?v=bXU78K6XSwg
eftir sýningu fórum við agndofa í bjór á hostelbar, borðuðum svo miðnæturkvöldmat á eina opna veitingastaðnum sem við fundum, röltum hlykkjóttar götur meðan við biðum eftir lestinni til baka sem lagði af stað kl 3.15. mögulega lengstu 7 klukkustundir lífs míns. komin til baka um 10 í morgun og beint heim í lúr. það má bera þetta saman við að keyra fram og til baka á egilsstaði til að fara í leikhús.
annars var helgin í heild mjög góð, var á silkiprentnámskeiði í galeria posibila (sem rekur "half-full" bókasafnið sem sérhæfir sig í silkiprentmyndasögum) á föstudag frá hádegi til miðnættist, skálaði smá í góðum hóp eftir harða vinnu og svo aftur á verkstæðið að klára á laugardaginn. tókst svo um kvöldið að gera fyrsta vídjóið mitt síðan ég kom hingað, en við fengum sem verkefni yfir önnina að gera þrjú einnar mínútu vídjó. stórgott!
ég er alltaf að velta fyrir mér tungumáli þeirra rúmena og eitt sem mér finnst mjög skemmtilegt er hversu duglegir þeir eru að nota endinguna "rie" eða "rí" á íslensku sbr. bakarí. hér er hægt að fara í klipperí og kringlerí og jafnvel pelserí, og finnst mér að íslendingar ættu að vera duglegri að nota téða rí-endingu.
No comments:
Post a Comment