Monday, July 11, 2011

svitnað í sveitinni

allskonar ferðalög hafa einkennt síðust daga mína hér í rúmeníu.

ég skrapp aftur niður að svartahafi til að fara á jamiroquai tónleika á mamaia ströndinni, við ana-maria fengum svo far með sturluðum manni sem skutlaði okkur og fleirum yfir á aðra strönd fyrir smáaura. hann keyrði mini-bus, reykti, sendi sms, hringdi símtöl og stoppaði á miðjum vegi til að spjalla við leigubílstjóravin milli þess sem hann dillaði sér við manele (rúmenskt-sígauna-ruslpopp). þegar þangað var komið rétt eftir miðnætti vorum við glorsoltnar og húsnæðislausar en allt saman reddaðist það á endanum.

átti svo indælis viku í búkarest í góða veðrinu, sá brúðuleikhúsuppfærslu af lísu í undralandi, og fleira skemmtilegt.

á föstudag þáði ég svo boð í sveitina í brúðkaup. tók grínlega lest fulla af peasants (er til íslenskt orð?) sem hámuðu í sig sólblómafræ, en ég hef gleymt að taka fram að það er þjóðarsport rúmena, og nánar tiltekið sólblómafræ í skelinni, svo þau hakka þetta í sig og eru komin með ansi góða tækni við að ná fræinu út og skyrpa skelinni svo út úr sér hér og þar um borgina svo allstaðar má sjá ummerkin.

í sveitinni tóku á móti okkur krúttlegar ömmur og indælis skyldmenni upp til hópa. matur og nóg af bjór. á laugardeginum var steikjandi hiti og alls ekki kjörinn dagur til brúðarveislu en herlegheitin hófust í garðinum á heimili brúðhjónana þar sem slegið hafði verið upp tjaldi og skreytingum. þar var komið með lítið grenitré sem brúðurin og fleiri hjálpuðust að við að skreyta með músastigum og pappírsblómum í öllum regnbogans litum. því næst var náð í brauðhleif og vínglas sem haldið var ofan á höfði brúðarinnar sem braut af brauðinu, dýfði því í vínið og borðaði, tók því næst nokkra gúlsopa af víni og spýtti á tréð. þá var stiginn hringdas í garðinum (hora) og tréð dansaði með.

næst kom maturinn sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega í gengnum því hann var bara dæmigerður rúmenskur matur. vegna hita þurrkuðu gestir af sér svitann í gríð og erg með servíettum en eftir þessa veislu, sem flestir íslendingar eiga að venjast eftir hjónabandsvígsluna, var náð í stól þar sem brúður og brúðgumi skiptust á að næla blómum í brjóst brúðarmeyja, -sveina og tengdaforeldra. allt klappað og klárt og stillt upp í "skrúðgöngu". fremst fór jólatréð, því næst stúlka með handklæði á öxlinni og köku á fati og önnur með spegil. á eftir fylgdu brúðhjón og fylgdarlið, harmonikka, fiðla og sneriltromma og loks aðrir gestir. gengið var fylktu liði að kirkjunni þar sem athöfnin fór fram undir leiðsögn að mér sýndist þriggja presta. settar voru kórónur á brúðhjónin, gengið hring um altari eða borð á meðan kastað var hrísgrjónum yfir allt saman. eftir að vera gefin saman fór nýgift parið svo út fyrir kirkjuna þar sem þau slepptu hvítum dúfum og kakan var svo brotin enn á ný yfir höfði brúðarinnar og dreift meðal gesta. og til baka fór skrúðgangan að heimili brúðhjónanna þar sem við tók partý. jólatréð var svo skilið eftir við lóðarmörkin þar sem því var ætlað að standa í að minnsta kosti eitt ár. rúmenskt sveitabrúðkaup í örmynd séð með augum íslendings.

hitti svo fleiri ættingja, heillaðist enn meir af sveitahefðunum, vínbruggun, ostagerð, húsdýrum og ávaxtatrjám, sólbrann á vaði í á og fékk fínasta heimabrugg í langþráðum kulda vínkjallara afans.

kom heim í borgina um kvöldmatarleytið og held aftur út á lestarstöð eldsnemma í fyrramálið. svo margt sem þarf að sjá.

No comments: