Monday, May 30, 2011

borða. drekka. njóta.

ó rúmenska sól hvað ég elska þig áður en þú verður 50 gráður.

bjó til eitt vídjó með erasmus vinkonum mínum sem lítur óvart svona út:
úps

hér hefur margt skemmtilegt gerst síðustu daga. matarboð, brotinn stóll og hlátur undir borði, sýna list á annarra manna listasýningum, eftirpartý með allskonar hljóðfæraleik og snúningar á dansgólfum.

síðasta fimmtudag vaknaði ég eldsnemma, gaf gullfiskunum mínum morgunmat sem þeir eiga ekki annars að venjast og hljóp út á gara de nord. íslenskt-lettneskt-pólskt föruneyti á leið til fjallabæjarins brasov. ekki þau bestu í ferðaplönum en við vorum svo svöng þegar við komum að við byrjuðum á að borða, fórum svo að rótum fjallsins þar sem nafn bæjarins stóð reist hvítum hollywood stöfum til að taka vagn upp á topp og njóta útsýnis með freyðivín en þá hafði síðasta ferð nýlagt af stað. fórum þá að skoða svörtu kirkjuna sem var alls ekki svört en hún var víst svört eftir bruna sem var einu sinni í borginni (segi ég af leti án þess að staðfesta þær heimildir) og var svo þrifin. hún var líka lokuð en mjög fín að utan samt sem áður. við röltum þó og gengum strada sforii sem þýðir reipis-gata (mjög asnalegt á íslenskri tungu) en hún er 82 metra löng með háa húsveggi báðum megin og aðeins 1.32 metra breið sem þýðir að hægt er að snerta báða veggi meðan maður gengur hana. kíktum svo í gamalt-dót-búð og fengum okkur ís og bjór (ekki í búðinni samt). tókum rútu til baka sem var klukkustund fljótlegra en lestin en án möguleika til að standa upp og teygja úr sér. ef þefskyn mitt var ekki að leika mig grátt þá get ég svarið að bílstjórinn kveikti sér í einni vænni og grænni við stýrið þegar við nálguðumst búkarest.

á laugardaginn var svo opinn dagur listaháskólans. hönnunardeildin er í byggingum sem liggja í hring og skartar rosa fínum garði í miðjunni með skúlptúrum nemenda. þar var slegið upp tjöldum og básum með allskonar fínu til sýnis og sölu í boði nemenda, byggingarnar voru opnar til að skoða aðstöðu, börn gátu litað og málað og hægt var að blása gler fyrir smápening. fullur garður af fólki frá morgni til kvölds, músík, bjór og grill. FRÁBÆRT PARTÝ sem LHÍ gæti lært eitthvað af.

um kvöldið var svo árlegt ball arkitektúrskólans en það er einn heitasti viðburður ársins hér í borg. þar er alltaf þema og við maria settum blóm í hárið og fórum sem hippar.

núna er svo síðasta vikan í skólanum áður en kemur að sýningum og prófum. til stóð að allir erasmusnemendur héldu sýningu saman næsta mánudag en nú kom í ljós að skólagalleríið er víst ekki laust, hvernig sem það fór framhjá alþjóðafulltrúanum.., og því gæti svo farið að við höldum sýninguna í í gallerí eyjafjallajökull því íbúðin mín er fátæk að húsgögnum og hentar ágætlega til svona uppátækja. neyðin kennir naktri konu...þið vitið. velkomin til rúmeníu.

3 comments:

glamurgella.blogspot.com said...

Þetta er besta vídjó sem ég hef séð. Not.

dórakel said...

fml nú er það komið

glamurgella.blogspot.com said...

HVAÐ GERÐIST HÉRNA?!?!?! ÉG BILAST Í AUGUNUM!