nú sit ég með stolið internet og drekk fyrsta kaffibollann í nýju heimkynnum mínum á áttundu og efstu hæð. eftir margar hryllingsferðir í hinar og þessar íbúðarholur fann ég einstaklega fína eins manns íbúð með stórt eldhús og stóra glugga í gömlu hverfi miðsvæðis í borginni. svo þið getið byrjað að panta flugmiðana, ég er í stakk búin að taka á móti gestum!
ég er byrjuð á prentverkstæðinu þar sem ég hef tvo gamla reynda og tvo yngri aðstoðarmenn að hjálpa mér með verkefnið mitt en þeir prenta líka sjálfir, meðan þeir keðjureykja og þræta um hvernig sé best að gera hitt og þetta.
í ljósmyndun erum við að vinna í hópum og förum á silkiprentnámskeið í næstu viku. í þeim tímum eru allir alltaf inná klósetti að reykja (en það eru allir síreykjandi allstaðar hér) og ég er að hugsa um að stofna gallerí þar inni í anda gallerí skítur og kanill. shit and cinnamon gallery? eða ekki.
vídjótímarnir eru að mestu leyti ekki til staðar. ég hef ekki alveg áttað mig á því kerfi en á þriðjudögum og miðvikudögum þegar eiga að vera vídjótímar og ég mæti og finn hvorki kennara né nemendur þá fer ég niður á prentverkstæði í staðinn.
mér skilst að ég eigi líka að vera í teiknitímum einu sinni í viku en þar er sama sagan að kennarinn mætir mjög sjaldan en sendir út verkefni. fyrir mánudaginn á ég að teikna sjálfsmynd. ég skil ekki alveg tengslin við ljósmyndun en hvað um það.
krakkarnir í bekknum sögðu mér að fyrir nokkrum árum kom stelpa frá danmörku sem skiptinemi á fyrsta ári. hún átti upphaflega að vera eina önn en varð ástfangin af rúmenskum strák, kláraði öll þrjú árin úti og gifti sig svo og býr í búkarest í dag. (engar áhyggjur mamma)
varð vitni að rúmenskri jarðarför um daginn alveg óvart og komst að því að kistan er opin í þeirra athöfn og þegar líkbíllinn ók hægt í burtu með ættingjana í halarófu á eftir fékk ég að líta augum hinn látna í skottinu. frábær tímasetning. vinur minn sagði mér svo að þegar manneskja deyr er hún "geymd" á heimili ættingjanna fram að jarðarför en ekki í líkhúsi, en það geta verið um 3 dagar og á meðan þarf að hylja alla spegla í húsinu og einnig á líkbílnum. einhverstaðar í rúmeníu er svo kirkjugarður þar sem allt er málað og skreytt og marglitað, nokkurs konar gleði-kirkjugarður en þangað fer ég vonandi í heimsókn.
hér er mynd:

glæsilegt?
veðrið hér er eitthvað búið að leika íslenska leikinn en það kom 16 stiga hiti og sól í 2 daga og svo aftur kalt í í viku. núna er vorið samt alveg komið held ég og ég þarf að finna mér gluggatjöld.
innlit-útlit uppgjör á heimilinu kannski í næstu færslu.
ble